Saturday, December 18, 2010

Lýðræðisdeildin í vinstri grænum

Ef þingmenn sem styðja ríkisstjórnina verða að styðja fjárlagafrumvarp, þá þarf ríkisstjórnin að tryggja að fjárlagafrumvarpið gangi ekki gegn sannfæringu neins af þeim þingmönnum. Svo einfalt er það. Í stjórnarskránni stendur: "Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.". Þar stendur ekki: "Alþingismenn eru bundir við að styðja stjórnarsáttmála eða hvaðeina sem ríkisstjórn sem þeir standa að, velur að setja fram". Ég sé ekki að fjárlagafrumvarp sé eitthvað öðruvísi í þeim efnum en önnur mál.

Lýðræði er ekki auðvelt. Það krefst þess að hlustað sé á fólk. Að heyra, og taka ekki tillit til þess sem er sagt, er ekki að hlusta, Það heitir að hundsa. Að heyra rök, og koma ekki með málefnaleg mótrök, og fara sínu fram í krafti stöðu, heitir valdníðsla. Af því sem ég hef heyrt af þessari umræðu um afstöðu þremenninganna í VG, þá er Steingrímur, Jóhanna og Össur, ásamt stórum hluta þingflokka sinna, að fara fram með hætti sem er ólýðræðislegur, þar sem þingmenn eru ýmist hundsaðir eða beittir valdníðslu. Og eftir það á að krefjast þess að viðkomandi styðji málið út af því hvar þeir eru í flokki. Að mínu viti er það að krefjast þess að þeir gangi gegn eigin sannfæringu, og þar með að þeir brjóti stjórnarskrána.

Menn þurfa að fara að átta sig á hvað lýðræði er. Það er ekki "stækkað einræði", þar sem fleiri einstaklingar fara með einræðisvaldið, og menn skulu gera svo vel að lúta öllu því sem frá þeim koma. Að mínu viti, þá hefur "órólega deildin" í vinstri grænum áttað sig á þessu. Ég legg því til að verði skipt um nafn á þessum hópi, og þau kölluð "lýðræðisdeildin" í vinstri grænum.